Smá tilraun til að halda utan um það helsta sem ég vil muna frá árinu 2006.
Ekki man ég neitt hvað gerðist í janúar annað en að þá pöntuðum við Flórídaferð sem við fórum svo í í febrúar. Daginn sem átti að leggja af stað var hringt úr Snælandsskóla og sagt að Ari Páll væri orðinn veikur. Hann var drifinn til læknis sem úrskurðaði þetta flensu og bauðst til að skrifa vottorð svo hægt væri að nýta sér forfallatrygginguna. Við ákváðum að fara frekar með hann veikan. Ekki síðasta erfiða ákvörðunin í ferðinni.
Hann var svo veikur helming ferðarinnar og við vorum mikið bara í íbúðinni fyrstu dagana. Náðum samt JFK Space Center, Universal Studio og Universal Islands of adventure og Magic Kingdom í ferðinni Mæli með Islands of Adventure fyrir þá sem eru komnir yfir 4 fet en Magic Kingdom er fínt fyrir smábörn. Svo fórum við í Sea World líka og er það sér kafli út af fyrir sig.
Miðar í þessa garða eru ekki ódýrir. Algengt verð er $50-$80 per mann per garð sem verður slatti fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem fer í 4-5 garða. Maður reynir því að nýta alla mögulega afslætti sem bjóðast. Þegar ég var að versla miða í garðana benti afgreiðslukonan mér á að það væri hægt að fá góðan afslátt af Sea World miðum ef maður legði það á sig að hlusta á klukkutíma söluræðu um eitthvað sem héti timeshare. Ég vissi nú ekki hvað það var en það fylgdi víst morgunmatur með svo maður hlaut að geta borðað á meðan maður hlustaði á einhvern sölumann. Svo myndi maður standa upp segja no thanks og fara og fá ódýra Sea World miða. Pottþétt plan.
Morguninn eftir vorum búin að kaupa viku á ári í
tveggja herbergja íbúð í
Vistana Villages Resort með skiptirétti og
fríðindum hjá Starwood keðjunni. Það þarf greinilega að passa sig betur á þessum amerísku sölumönnum. Við erum yfirleitt frekar tregir kaupendur. Ég skil eiginlega ekki hvernig hægt var að fá mig til að slengja á borðið tæplega bílverði (rúmlega á amerískan mælikvarða) eftir bara klukkutíma sölumennsku.
Síðan höfum við prófað bæði að gista þar sem við keyptum og að nota fríðindin á Starwood hótelum og sjáum ekki eftir þessum kaupum.
Sea World var svo ágætt nema hvað ég þorði ekki í stóra rússíbanann. Ekki þorði ég í Hulk rússíbanann í Universal heldur. Ég hlýt að vera orðinn gamall.
Bergsteinn flutti til Denver í ágúst. Ég tel mig eiga nokkurn þátt í því þar sem að ég fékk hann til Medcare. Mér heirist á honum að amerískur lífsstíll henti honum vel. Beer 'n Burgers er uppistaðan í fæðinu held ég. Zip kóðinn hjá honum er passlega nördalegur: 80211
Í lok ágúst gerði ég mér grein fyrir að ellin væri á næsta leiti og fór að mæta í líkamsrækt í örvæntingarfullri tilraun til að halda aftur af henni. Til að tryggja að ég mætti þá skráði ég báða synina í fimleika á sama stað. Þá ætti ég alveg örugglega erindi þangað tvisvar í viku. Það virkaði og mér tekst enn að mæta reglulega. Strákarnir eru farnir að kvarta undan þessum ferðum stundum. Ég efast um að mér takist að fá þá með næsta sumar. Þá verð ég að finna aðrar aðferðir til að þvínga mig til að mæta.
Sumarið var versta svifvængjasumar í manna minnum. Ég fór þó nokkrar ferðir þegar veður og fjölskylda leifðu.



Við fórum í miklar framkvæmdir í garðinum. Pallur, hellur og veggur. Svona eftirá var þetta bara nokkuð gaman. Klárum vonandi garðinn næsta sumur, þ.e. ef það er þá hægt að klára garða.



Fór í 1 golfmót á árinu eins og undanfarinn ár. Fékk ekki verðlaun í þetta skiptið. Hef annars verið duglegur við að sanka að mér skammarverðlaunum. Einhvern góðan veðurdag tek ég þetta föstum tökum.
Guðrún fór allavega 2 aðrar utanlandsferðir á árinu en ekki ég. Svo fórum við í mjög langt ferðalag innanlands, eða það fannst mér allavega. Skoðuðum framandi staði eins og Hofsós og Húsavík og fræddumst um tippi og íslenska flóttamenn. Ég er ekkert voðalega mikið fyrir ferðalög innanlands en meðan veðrið var gott var þetta fínt. Heima er samt best segi ég.